Tvíraddað stef I

Menn sungu um Tondeleyó og dálitla kofann hans fyrir tæpum sextíu árum á bökkum Norðurár í Borgarfirði. Nánar tiltekið á flóðunum frá Svarfhóli og niður að Flóðatanga. Og lagið fór um allt landið og miðin, og stúlkur og drengir í heyskap horfðu með aðdáun á unglingana sem höfðu lært bæði lag og texta og sungu, sum hver dúett. Og maður gat greint dularfullt blik í augum þeirra þegar þau mættust. Og velti rót þess fyrir sér.

„Ævilangt hefði ég helst viljað sofa
við hlið þér í dálitlum svertingjakofa,
Tondeleyó, Tondeleyó.“

Við Ásta lukum mánaðarveru í litla kofanum okkar í Borgarfirði gær. Ég kallaði hann „hirðingjakofa“ í samtali við Magnús á Gilsbakka í Þverárrétt í fyrra. Og vera okkar í kofanum núna tengdist mjög minningum frá fyrri árum. Einn morguninn þvoði Ásta mér um hárið upp úr plastfati. Það varð til þess að við ræddum um laugardaga á Gilsbakka fyrir fimmtíu árum plús, þegar allt vinnufólkið þvoði hárið á sér upp úr vaskafati eftir vinnudag.

AGAvélin var þá kynnt til hins ýtrasta og biðröð var við borðið að komast að og sumir strákanna nutu forréttinda, og var ég einn þeirra, því að Ásta þvoði mér og ég vildi helst ekki að því lyki. Svo rafmagnaðar voru hendur hennar og snerting og nærvera. Og ég upplifði þessa endurminningu í hirðingjakofanum okkar einn morguninn fyrir skemmstu. Allt rafmagnið, alla hlýjuna, alla eftirvæntinguna. Og titraði lítilsháttar eins og í fyrri daga.

En þarna um árið á Gilsbakka var margt valinkunnra sumarkrakka. Þarna voru Haddi, Kusi, Svenni Matt, Villi Ingvars og síðar Jón bróðir hans. Haddi er Hafsteinn Austmann listmálari, Kusi er Kjartan Sigurjónsson organisti, Svenni er sonur Matthíasar, sem var þekktur listmálari á þeim tíma, Villi, Vilhjálmur var sonur Ingvars Vilhjálmssonar útgerðarmanns í Ísbirninum og Jón bróðir hans.

Þá voru þarna ýmsar stúlkur. Fyrst að telja Ásta mín, sem var svona um það bil eina kvenveran á staðnum í mínum augum en hinar dálítið eins og í þoku. Hrafnhildur, kölluð Krukka, Magga kaupakona, Magnea Halldórsdóttir, sem giftist norður í Grímstungu, Lóló sem fór grátandi heim til sín eftir tvær vikur við að raka tað af túnunum með Nikólínu.

Ó, já.. Þetta, ásamt svo mörgum ljúfum stundum rifjaðist upp á dögunum okkar í litla kofanum sem við köllum Litlatré. Og kvöddum í gær, í bili, eftir 30 daga dvöl.
Og söknum þegar í stað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.