Framkrókar

Viðstaddur brautskráningu kandídata við Kennaraháskóla Íslands, í gær, situr í huga mínum eitt og annað eftirtektarvert úr ræðu rektors skólans, herra Ólafs Proppé. Meðal annars sagði hann, nokkurn veginn svona, að ekki ætti að sinna kennarastarfi af trú eða tilfinningu, heldur með rökvísri hugsun, byggðri á þekkingu og staðreyndum. Einhvern veginn fannst mér notkun hans á orðinu „trú“ vera óþarflega víðtæk og bjóða upp á neikvæða ósamkvæmni.

Skoðum til dæmis eitt atriði úr viðurkenndri aðferðafræði sem lítur að sjálfsstyrkingu fólks. Þar er lögð mikil áhersla á að leiðbeina því og örva það til að hafa „trú“ á sjálfu sér og á hæfileikum sínum og getu, til að ná árangri í þeim viðfangsefnum sem það fæst við. Er þetta eitt af grundvallaratriðum í námi, hvort sem það nú er nám í leikskólum, grunnskólum eða æðri skólum hverskonar. Takist fólki ekki að hafa „trú“ á getu sinni þá aukast líkur að miklum mun á að það gefist upp. Í slíkum tilvikum hlýtur „trú“ þrátt fyrir allt, að vera eitt af lykilatriðunum.

Síðar í ræðu sinni flutti rektor kandídötum hvatningarorð um að sinna starfi sínu af alúð og einlægni. Það er orðið alúð sem bergmálað hefur í kolli mínum síðan. Nú er seinni liður orðsins -úð samtengdur mörgum mismunandi hugtökum s.s; ástúð, andúð, dulúð, harðúð, mannúð, munúð og samúð. Þegar orð sækja að manni leitar maður til orðabókanna og flettir upp á þeim. Það gerði ég og las um -úð. Þar segir; hyggja, hugarfar, hugð- í samsetningum um hugarfar, eiginleika, ástand- og bætir við; fastúð, ljóðúð, kvöldúð.

Vandinn sem eftir stendur snýst um alúð. Ef sagt er að alúð þýði af öllum huga, þá gæti maður spurt hvort átt væri við öllum góðum huga eða öllum illum huga. Og þá fer að versna í því og kominn tími til að draga í land. Kýs samt að bæta við skýringum Eddu, ( sem við áður kölluðum Árna Bö)en þar segir; 1 hjartanleg framkoma, vingjarnleiki…2 stunda af kostgæfni.

Í Orða heimi er liðlega dálkur með mismunandi útfærslum á orðinu alúð. Vel ég mér eina þar af sem lokaorð; „leggja sig í framkróka.“ (að hafa sig allan við).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.