Rigningarsumarið mikla

Þetta þráláta kalda veðurlag, norðan átt, heiðskír himinn og næturfrost, sem legið hefur yfir landinu svo til allan maímánuð, minnir óneitanlega á vorið 1955. Þá voru dagarnir fallegir eins og núna en gjarnan þunn frostskel á jörð á morgnanna. Við unnum við að undirbúa kartöflugarða Reykjavíkurbæjar fyrir sáningu, en almenningur tók gjarnan á leigu garð og setti niður kartöflur og sitthvað annað.

Þetta voru heilmikil svæði víða um bæinn sem eru nú öll horfin undir byggingar, fjölbýlishúsahverfi, samanber Háaleitishverfi, iðnaðarhverfi, svo sem Skeifuna og Bæjarháls. Stærsta svæðið er nú undir golfvellinum við Korpúlstaði. Unnið var með dráttarvélum með plógum og tæturum og skikarnir mældir og merktir. Þá var í flokknum lítil jarðýta og tveir vörubílar. Vinnuhópurinn samanstóð af um það bil tíu manns.

Eitt skiptið var okkur sendur kunnur veitingamaður á miðjum aldri. Hann hafði verið ráðinn fyrir kunningsskap og átti að aka dráttarvél með tætara. Eitt skiptið ætlaði ég hitta hann að morgni dags, þá átti hann að vera staðsettur á svæðinu við Bæjarháls, og ræða við hann dagsverkið, en fann hann hvergi. Ókum við um öll svæðin en fundum hann ekki.

„Förum einn rúnt,“ sagði Loftur, vörubílstjórinn sem ók mér. Hann ók Ford vörubíl, litlum, eins og þeir voru í þá daga, með einum öxli að aftan. Hann ók niður Laugaveg og vestur Austurstræti og sjáum við þá ekki dráttarvélina með moldugan tætarann standa fyrir utan Cafe Höll. Manntetrið hafði ákveðið að skreppa þangað í tíukaffi. Alla leið ofan af Bæjarhálsi. Það gerðist ekki aftur.

En það sem ég ætlaði að segja um veður er að sumarið 1955 var eitt af mestu rigningarsumrum á minni tíð. Gekk heyskapur svo illa hjá bændum að bæjarbúar voru hvattir, í útvarpi og blöðum, til að fara út á land og leggja þeim lið þegar þurrkdagur gafst. Hey voru hrakin, gul og illa farin. Vonandi er veðrið um þessar mundir ekki fyrirboði langvarandi rigninga í sumar.

En hvað bændur varðar þá eru að sjálfsögðu allt aðrir tíma hjá þeim með tæki og tól. Nú ljúka þeir heyskap gjarnan á þrem til sjö dögum. Og eiga sennilega fæstir hrífu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.