Átta hlutir

Margar myndir í fjölmiðlum síðustu daga sýna forseta Íslands brosandi og stoltan í miðjum hópi íslenskra milljarðamæringa. Hann hefur sjaldan notið sín betur. Þeir eru staddir í Kína. Fyrirsagnir fréttamiðla skrifa með feitu, Kínverska efnahagsvélin, Stórkostleg tækifæri, Samið um stærstu…, Íslensk hjón í átta…, FL Group gerir milljarða samning, Sportís semur um fatnað.

Á öðrum vettvangi, þessir kaupa símafyrirtæki í ýmsum löndum. Hinir kaupa verslanakeðjur í ðrum löndum. Ósjálfrátt kalla heilasellurnar í gömlum karli á lágum eftirlaunum fram gamalt dægurlag, „Money, money, money….!“

Útrás, útrás, útrás. Vissulega er enginn á móti útrás. Enginn hefur á móti efnahagslegum framförum. Allir hljóta að fagna velgengni viðskiptajöfranna. Samgleðjast ríkasta karlinum og ríkustu konunni. Samgleðjast bönkunum með milljarða hagnaðinn sinn á fyrstu þrem. Og arði af áli. Allir geta því fallið fram og tekið undir í gamla dægurlaginu: „Money, money, money…!“ og jafnvel bætt við frá eigin brjósti, „I love you so much.“

En það er eitt sem kemur á óvart í þessum efnahagslega stórsjó að þrátt fyrir tröllslega veltu og risavaxinn hagnað skuli finnast í þjóðinni fólk sem er svo fátækt að það á ekki fyrir mat síðustu daga mánaðanna. Mér er eiginlega engin leið að skilja það. Engin leið að skilja að stjórnvöld þessarar efnuðu þjóðar skuli ekki hafa andlega stærð til þess að sjá svo um að allir hafi mat í þrjátíu daga í mánuði. Það er til nóg af peningum til þess.

Það vantar rödd í fjölmiðlaflóruna. Rödd sem skoðar mál þeirra lakara settu og talar máli þeirra án þess að vænta persónulegs stjórnmálalegs ávinnings í staðinn. Það fólk sem kennir sig við vinstri stjórnmál þessi misserin hefur ekki staðið undir nafni. Og eitt af því sem mér gremst einlæglega, ótrúlegt að játa það, er þegar það vill koma rödd sinni á framfæri og leitar þá til Moggans með pistla sína, Moggans, sem það svo gagnrýnir og níðir við mörg tækifæri. Já, hann er kúnstugur kýrhausinn.

Leyfi ég mér að enda þessar einfeldningslegu hugleiðingar mínar með smáljóði eftir Piet Hein í þýðingu Helga Hálfdánarsonar:

Að eiga

Ég þarf að annast um ótal hluti
sem eignast ég smátt og smátt,
þó orðað gæti ég eignarhaldið
á annan og réttari hátt;

því einlægt sé ég þann sannleik vera
á sveimi í kringum mig,
að eigirðu fleiri en átta hluti,
þá eiga hlutirnir þig.

Eitt andsvar við „Átta hlutir“

  1. Sæll Óli hún er þörf umræðan um þessi mál ég verð mikið var við það í mínu starfi og umræðum að það er aðalega hugsað um hagnað hjá Fyrirtækjun og Stofnunum,en minna um hag starfsfólksins almennt. Ég held líka að ekki áður hafi orðið eins mikil eignatilfærsla í þjóðfélaginu og á síðustu árum. Allar fréttir í fjölmiðlum fullar af fréttum af fjárfestum og hagnaði sem almenningi varðar lítið um og botnar ekkert í. Þökk fyrir heimasíðuna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.