Vinir um eilífð – Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti og enginn snjór. Ánægjulegt. Vorið tók vel á móti okkur á tónleikum hjá Skagfirsku söngsveitinni í Langholtskirkju undir stjórn Björgvins Þ. Valdimarssonar og píanóundirleik Dagnýjar Björgvinsdóttur. Kórinn er greinilega í framför. Hljómaði betur en í fyrra. Hafði og frábæra einsöngvara með sér. Tónleikarnir hófust með hinu kunna lagi Á Sprengisandi. Hafði það verið vinsælasta lag kórsins í Kanadaferð hans á síðasta ári. Kirkjan fylltist strax af söngkrafti og sönggleði.

Nokkur umskipti urðu þegar Sigurður Skagfjörð söng einsöng í Nótt, lagi Árna Thorsteinsson við texta Magnúsar Gíslasonar. Ljósar nætur, lag og ljóð Lofts. S. Loftssonar var kraftmikið og sannfærandi. Eftir hlé hófst dagskráin á Litlu orgelmessunni, Missa brevis. Þar bar lokastefið, Agnus Dei, af. Einsöngvari í messunni var Hulda Guðrún Geirsdóttir. Á eftir messunni kom negrasálmurinn Ev’ry Time I Feel the Spirit, þar sem Harpa Hallgrímsdóttir söng einsöng.

Þegar kom að Höfðingja smiðjunnar, lagi Björgvins Þ. Valdimarssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar, var eins og tónleikarnir hæfust á efra plan. Söngur Sigurðar Skagfjörð féll vel að gullfallegu laginu og skilaði hann hinum hrynjandi texta Davíðs vel. Og gleðin í sálinni óx.

En þrátt fyrir marga góða spretti hefur hámark tónleikanna sennilega verið í lokalagi prentaðrar dagskrár, Vinir um eilífð. Það er undra fallegt lag eftir hinn þekkta höfund Andrew Lloyd Webber. Hér lögðust allir á eitt. Lag, texti Bjarna S. Konráðssonar, tvísöngur þeirra Sigurðar Skagfjörð og Stefáns Helga og kórinn.:

„Því að vinir geta sorgum burtu bægt
og að bragði geta alla storma lægt.
Það er gott að eiga góðan vin í raun,
já, góðan vin um eilífð.
Já, eiga vin um eilífð.“

Í heildina hljómuðu tónleikarnir eins og fagnandi vorboði og glöddu alla viðstadda. Það var mjög ánægjulegt að sitja og hlusta á kórinn og söngvarana í þessa tvo klukkutíma á sumardaginn fyrsta. Hafið heila þökk fyrir. Gleðilegt sumar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.