Vika bókarinnar. Þriðji þáttur

Það urðu miklir fagnaðarfundir og ást við fyrstu sýn þegar ég eignaðist Íslendingasögurnar. Þá var ég sautján ára. Hafði fengið útborgað fyrir vinnu við uppskipun á eyrinni og fór í Bókaverslun Norðra sem þá var til í Hafnarstræti. Líklega við hliðina á Heitt og kalt. Ekki man ég hvað safnið kostaði en það fékkst með afborgunum, hundrað krónum á mánuði. Þrjátíu og níu bækur.

Njála varð strax ein af uppáhaldsbókum mínum. Fékk ég mikla gleði af sögu og texta. Sum atvik og setningar grópuðu sig fast í hugann. Er erfitt að velja einstaka atburði sem dæmi, bókin er svo sögumikil. Eiginlega má segja að hún sé þrútin af stórkostlegum frásagnaranda og töfrandi texta. Féllu gífuryrt svör Skarphéðins, við spurningum höfðingjanna á Alþingi, vel í kramið hjá sautján ára strák. Og kenndi ég vinum mínum þau gjarnan.

Einhverju sinni voru við nokkrir gárungar á göngu niður í Austurstræti. Það var blíðskaparveður. Pétur Hoffmann, skrítinn maður og þjóðkunnur, fremur lágvaxinn og þybbinn, stóð upp við Útvegsbankann í Austurstræti og tók það rólega í sólinni. Nokkuð var af fólki á röltinu. Þetta var um hádegisbil. Með hausinn fullan af Njálu vék ég mér að Pétri, en hann var þekktur fyrir að kunna Íslendingasögurnar utanað. Vildi ég láta reyna á karlinn. Hallaði ég mér að honum og sagði: „Esa gaprílar góðir. Gægr es þér í augum, ..“ Hvar standa þessi orð Pétur?““ Hann svaraði að bragði: „Njálu. Brúðkaup Gunnars. Þórhildur á Grjótá.“ Ég horfði á hann með aðdáun. Honum var skemmt.

Það var svo einhvern tíma að þrjár eða fjórar konur voru í heimsókn hjá mömmu minni suður á Bjargi. Þær drukku kaffi og ræddu málin. Einhver gáski hljóp í mig og ég spurði þær hvort ég mætti lesa fyrir þær nokkrar málsgreinar úr Íslendingasögunum. Það þótti þeim menningarlegt og tóku því vel. Af meinfýsi las ég fyrir þær valda kafla úr Bósa sögu og Herrauðs. Þær tóku því með stillingu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.