Vika bókarinnar. Fyrsti þáttur

Þegar ég les um það að vika bókarinnar standi nú yfir, þá lyftist örlítið á mér brúnin. Það gerist þótt hún hafi verið sígin síðustu daga vegna vanheilsu í kroppnum. Alltaf er það gleðiefni að heyra umræður um bækur og orðin sem í þeim standa og hugsunina á bak við orðin. Blað allra landsmanna leggur sig fram um að fjalla um bækur og þættir heyrast í útvarpi og allt er það hluti af veislu fyrir þá sem eiga bækur fyrir vini.

Og ég sest inn í bókaherbergið mitt og fer augum um hillurnar og skoða bókakilina og reyni að flokka bækurnar í huganum. Fyrst flokka ég þær eftir efni þeirra og síðan eftir tímabilum í lífi mínu og þegar ég rifja upp hvað ég hef þurft að gefa frá mér af þeim, vegna rúmleysis, þá verð ég dálítið sorgmæddur og reyni að búa til setningu í huganum sem réttlætir óhæfuna. En svoleiðis sjálfsréttlæting er auðvitað bara lygi og blekking. Enda forðast ég að skrifa hana niður.

Stundum hef ég tekið tarnir og umraðað öllum bókunum í hillunum. Hef þá upplifað, eins og Rousseau sem talar um vikusálirnar sínar: „Ég er ofurseldur tvennskonar lunderni sem skiptist mjög reglulega á […]og kalla ég það vikusálirnar mínar, önnur gerir vit mitt sturlað en hin gerir sturlun mína vitra en þó þannig að sturlunin verður vitinu yfirsterkari í báðum tilvikum.“ Það er nefnilega talsverður vandi fyrir slaka meðalmennsku að halda sig í meiri vitsmunhæð en hún er hönnuð til.

Það er haft eftir Plató einhversstaðar að það sé svo sem ekki óyfirstígandi vandi að lyfta, eða hefja, sálina til meiri vitsmuna, vandinn felist í því að halda hæðinni. Þá er hann að tala um mannkynið og betri og verri tíma í andlegri sögu þess. Og þegar sá gallinn var á mér að önnur eða þriðja vikusálin tók völdin í huga mínum, þá færði ég rithöfunda úr neðri hillunum í þær efri og öfugt og valdi þá sem ég mat mest og setti hlið við hlið. Og að þessum byltingum loknum andvarpaði ég og fór mjúkum fingurgómum um kilina og talaði ástarorðum til bókanna. Og fann um leið fyrir nýjum efa um staðsetninguna.

Sagði þá kannski við einn höfundinn að þótt ég hafi unnað honum af ástríðu fyrir mörgum árum síðan og lesið hann aftur og aftur þá mundi mér naumast takast að lesa hann með áfergju núna. Og þegar ég heyri sjálfan mig tala svona þá sakna ég hæfileikans sem í mér bjó á árum áður, þegar ég skrópaði í vinnu til að ljúka bók sem ég eignaðist daginn áður. En svo get ég huggað mig við það að ekki minni maður en Halldór Laxness sagði einhvern tíma að það væri ekki hægt að ætlast til þess að maður hefði sömu sýn á bækur alla ævina. Það hefur vafalítið varðað stjórnmál hjá honum. Blessuðum kallinum

Eitt andsvar við „Vika bókarinnar. Fyrsti þáttur“

  1. Sú bók sem eltist best á fyrri hluta ævi minnar var Tunglið og Tíeyringurinn. Ekki var það aðalsöguhetjan sem heillaði, vandræðasnillingurinn Karl Strickland, heldur hinn, læknirinn sem varð bergnuminn af Alexandríu og offraði öllu fyrir ástina og kirtlaveikina.

    En ef kenning þín og Halldórs er rétt þyrfti ég líklega að lesa hana aftur núna, á þessum virðulega aldri. 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.