BWV 537

Sumir dagar láta í té meiri ánægju en aðrir dagar. Það munu flestir menn geta vitnað um. Þeir sem verst hafa það mundu kannski vilja segja að sumir dagar væru ánægjuminni en aðrir. Hvað um það. Mér var úthlutað yndislegum kafla í dag. Reyndar fleiri en einum. En BWV 537 stóð upp úr. Víst er dagurinn ekki allur svo að mögulegt er að fleiri góðilmi beri fyrir sál mína áður en lýkur.

Hæst bar, eins og fyrr sagði, BWV 537, það er Toccata, Adagio & Fuga í C-dúr, eftir meistara Bach, leikið af Helmut Walcha. (1907-1991) Það orsakaðist þannig að ég fór að taka svolítið til í geislaplötusafni heimilisins og týndi mér gjörsamlega í ýmsum meistarastykkjum sem ég hef ekki spilað nýlega. Þarna var ég innan um öll helstu stórmenni og virtúósa tónbókmenntanna og gleymdi mér fullkomlega. Yndislegt fólk af ýmsum þjóðernum talandi eitt tungumál í tónlistinni.

Svo þegar Toccatan með adagio kaflanum kom upp í hendurnar á mér setti ég hana á fóninn og heyrnartækin á hausinn og þandi eins og hauskúpan þoldi. Og þar sem ég kann verkið nokkurn veginn, hvarf ég sjálfum mér og leið út og upp til skýja, eins og sagt er í Tunglið, tunglið, taktu mig. Rifjaði upp yndislegar stundir sem við Glúmur Gylfason organleikari í Selfosskirkju áttum saman fyrir tæpum fjörutíu árum.

Glúmur kom mér upp á lag með að hlusta á orgeltónlist. Þessa umræddu toccötu átti hann á plötu með Fernando Germani, ítölskum organleikara sem heimsótti Selfoss eitt sinn og lék á orgelið í kirkjunni þar, muni ég þetta allt rétt. Glúmur útskýrði fyrir mér kaflana, sem eru þrír, gerði mér grein fyrir hraðanum sem maðurinn lék á, hvað væri gott við hann og þetta fína, fína, o.sv. frav. Við lifðum okkur af afli inn í tónlistina og þegar adagio hlutinn hófst hættum við báðir að tala og fengum vængi.

Nokkrum árum seinna hlustaði ég á blinda organleikarann Helmut Walcha leika toccötuna og tók það mig allangan tíma að sætta mig við hraðamismuninn á leik þeirra. En nú finnst mér enginn spila þetta rétt nema þessi blindi snillingur. Og þegar ég set diskinn á fóninn og stilli á mikinn styrkleika þá minnir tilveran mig á hve lífið getur verið yndislegt og margt stórkostlegt sem það býður upp á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.