Betri eru tveir en einn

Það fylgir því sérstök tilfinning að fara á fætur árla föstudaginn langa og ganga fáklæddur út á verönd við lítið frístundahús. Úti í mörkinni, alllangt frá öðrum hýbýlum. Og horfa yfir móana og til fjalla og finna í lykt andvarans að það er enn vetur, þótt veðurblíðan sé ótrúlega mannvæn. Og sakna söngsveitar mófuglanna sem lífga hverja þúfu og hvert barð þegar vorið víkur fyrir sumrinu. En sá tími er enn ekki kominn þótt landsmet hita marsmánaðar hafi verið slegið í sveitinni.

Og makinn kemur að hlið manns og minnist söngsveitarinnar Móakórinn, frá í fyrra og samtalið berst að krossfestingu Krists, og þeirri miskunn og þess náðarverks sem í þeim atburðum öllum felast. Hvar kirkjur og kenningar hafa svo umsnúið og einfaldað kjarna máls að þorri manna býst ekki við dýrara svari en því sem fæst í súkkulaðikúlu með gulum hænuunga á þakinu.

Á laugardeginum flugu álftir í hópum fram dalinn, frá fjöru til fjalla, á varpslóðir liðinna ára til að kanna hvort ísa hefði leyst á vötnum. Hundruðum saman. Í mismunandi stórum hópum. Það er von í kvaki þeirra á fluginu, tólf saman, sjö saman, þrjár saman og tvær. Nokkru síðar ein, eins og hún hafi sofið yfir sig og kvakaði hún stöðugt í kjölfari hinna sem voru löngu horfnar fram yfir heiðabrúnir. Undir kvöld komu þær til baka sem segir að ísinn heldur velli á vötnunum.

LitlatréFyrir morgunmessu á páskadag barst sms skeyti um gleðilega hátíð frá kvenbarninu sem glímir við að ljúka ritgerð um hagnýta guðfræði. Hagnýta guðfræði? Það eru þau fræði sem segja frá Honum sem útdeilir sálu sinni, eða eins og Jesaja skráir það og hljómar þannig á ensku: „If you pour yourself out for the hungry, and satisfy the desire of the afflicted….” (RSV. Jes. 58:10).

Við hlýddum því næst á biskupinn. Erum sammála honum um mörg meginmál. Jesús er upprisinn. Hann lifir. Og þeim sem kjörið hafa sjálfa sig til að boða hans orð, ber að standa sig betur í boðuninni. Það er lágmark að þeir trúi sjálfir því sem þeir boða og hafi að grunni þá reynslu að hafa lesið Ritninguna alla, spjaldanna á milli, oft, oft, og skilji samhengi bókanna. Að þeir standi sig betur en markaðsfræðingar peningahyggjunnar sem hvetja leiðtoga þjóða til að nefna ekki Guð á nafn, því það geti skaðað arðsemi fjármagnsins.

LitlatréÁ veröndinni við Litlatré upplifðum við fyrsta vorboða Miðmóa koma í líki skógarþrastar sem í fyrra gerði sér hreiður í litlum runna, í svo sem þriggja faðma frá kofanum. Og nú settist hann á planka sem kallast í Byko: A-gagnvarin alhefluð fura 45 x 95. Hét á árum áður tvær fjórar. Og við skildum það, við Ásta mín, þakklát fyrir þessa helgu daga kristinnar kirkju, að „Betri eru tveir en einn… …því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur…“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.