Að fá að vera manneskja II

Það er annars lærdómsríkt að velta fyrir sér hugsunum sem snúast um að fá að vera manneskja. Svo virðist sem að um allar götur mannsins megi sjá undirokað fólk og þá sem undiroka það. Nærtækt dæmi má lesa í Heilagri ritningu. Þar segir frá því hvernig Egyptar héldu Ísraelum niðri og komu í veg fyrir að þeir fengju að vera manneskjur eftir sínum eigin viðmiðunum. Þetta var fyrir 3300 árum, eða um 1300 fyrir okkar tímatal.

Í 400 ár höfðu Ísraelar verið þrælar Egypta og unnið mestu erfiðisvinnuna í landi þeirra. Egyptar voru latir, fégráðugir og ágjarnir og dáðu munaðarlíf. En Ísraelar blómstruðu og náðu frábærum árangri í afkomu sem helgaðist af eðlislægum áhuga þeirra á vinnu og vinnusemi. Urðu Egyptar því afbrýðisamir út í þá vegna velmegunar þeirra og fjölgunar og óttuðust að þeir gætu orðið þeim yfirsterkari. (Flavius Josephus Ant. Bók 2, kafli. ix).

„Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tígulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með.“ og „Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér… …og kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt.“ (2. M. 1. kafli).

Það er hægt að hugsa sér, eftir þessum orðum, að markmið Egyptanna með ánauðinni sem þeir lögðu á Ísraelana, hafi verið að varna því að þeir fengju að vera manneskjur. Kúga þá svo að þeir hefðu ekki afl aflögu til að rækta menningu sína og efla frelsisþrána sem hverjum einasta einstaklingi undir sólinni er meðfædd.

Og þegar fjallað er um minnihlutahópa í nútímanum ber mönnum að hafa í huga að hver einasti maður hefur rétt til þess að vera manneskja.

En það koma sífellt fram einstaklingar, trúarhópar, þjóðaleiðtogar og stjórnmálaflokkar, sem koma fram við aðra eins og þeir einir og þeirra viðhorf hafi réttinn til að vera manneskjur. Vissulega væri fróðlegt að skilgreina hvaða hvatir og eða hagsmunir búi að baki framkomu þeirra og viðhorfum til þeirra sem þeir telja sér óæðri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.