Heilabrot

Walt Whitman hefur reynst mér erfiður þessa viku. Hef verið að þrýsta mér í gengum hann síðustu daga. Hann er þó sagður eitt mesta ljóðskáld Bandaríkjanna fyrr og síðar. Reyndar hef ég lent í svipuðum erfiðleikum áður. Það sem sérfræðingar, bókmenntamenn, heimspekingar og geðfræðingar hinna ýmsu greina setja á hæstu hestanna og hrópa lof og dýrð yfir, veldur mér iðulega heilabrotum og verk í hnakkanum. Man eftir þessu m.a. þegar ég tók að klóra mig í gegnum Odysseif James Joyce.

Það dugði ekkert að taka magnyl. Upp kom einhverskonar styrjöld í sálinni. Hugsuninni. Skynseminni. Þráhyggjunni. Gat verkað sem togstreita í taugaendum og valdið óþoli í líkamanum. Og þá fann ég fyrir nálægð einhvers sem hugsanlega er hægt að kalla sturlun. Ef maður veit þá nokkuð hvað það orð segir. Þar í liggur mikill vandi. Í besta falli getur maður notast við einhverjar útskýringar sem aðrir hafa komið sér upp. En er nokkuð víst að þeim sé að treysta. Hverju er óhætt að treysta?

Stundum leiðbeindi ég fólki (það var á meðan í var í Samhjálp) sem vildi ná tökum á margflóknu líferni sínu. Líferni sem leitt hafði það hálfa eða alla leið til helvítis, að þess eigin dómi, en það er auðvitað sá eini dómur sem getur fengið fólk til að taka sig á af öllum lífs og sálarkröftum, leiðbeindi ég því til að leggja áherslu á að treysta Kristi Jesú. Það er nefnilega sitthvað að trúa og að treysta. Hvað sem guðfræðingarnir segja.

Og þeir sem náðu tökum á því að treysta Kristi Jesú, þessari yndislegu biblíusál, þeir upplifðu straumhvörf. Straumhvörf sem breyttu þeim. Og komust þannig í skjól. Skjól trúarinnar. En það er eins með menn og skip. Ef skip lenda í miklu óveðri, óveðri sem er miklu ægilegra en eiginleikar skipsins eru hannaðir fyrir, þá er svo þægilegt fyrir skipið að komast í höfn. Komast í skjól, eins og sálirnar sem lærðu að treysta.

En auðvitað er skip ekki smíðuð til þess að vera í höfn. Fremur en maðurinn er skapaður til þess að vera í skjóli. Og Walt Whitmann, já, það er merkilegt að lesa um hann og eftir hann.
Skoðum það betur síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.