Hinn fyrsti dagur

Við hefjum árið, vitaskuld, með því að hlusta eftir orðum Jesú Krists. Þau eru mikilsverð. Mikilsverðari en flestir hyggja. Í fyrsta lagi er það vegna þess að þau hafa í sér líf. Yfirfljótandi líf. En það má hugsa sér að líf sé virk orka og hreyfing. Erindi Krists var, er, að veita þessum orðum, það er, lífinu og orkunni sem í þeim býr til þeirra sem vanbúnir eru.

Þess vegna segir á einum stað: „Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.“ Og á öðrum stað „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.“ Viðhorf til þessara orða kallar á visku. Vilji menn fá hlutdeild í, eða þiggja af, lífi og orku orða Krists þurfa þeir að skilja að þeir verða að lækka sig.

Lao Tze segir um þetta lögmál: „Vötn og fljót ráða yfir lækjum dalanna, sökum þess, að þau liggja lægra.“ Að liggja lægra. Mörg orðahetja hefur hæðst að orðum Krists í ræðunni á fjallinu: „Sælir eru fátækir í anda. Sælir eru einfaldir.“ Í þessum orðum felst þó viðhorf manns til hans sjálfs. Hverjum augum hann lítur sjálfan sig. Stórlátur eða lítillátur.

Þegar miklir erfiðleikar steðja að fólki fækkar hratt þeim brynjum sem sjálfið hafði ofið utan um sig. Menn upplifa að vefnaður sá heldur ekki og brennur í eldi eins og annað hismi. En gjarnan í þeirri stöðu upplifa þeir að orð Krists kemur og andar inn í þá yl og afli elskunnar. Nýju andlegu lífi sem gerir þeim kleift að halda áfram. Ritningin nefnir þetta „náð á náð ofan.“

Megi hún hlotnast mörgum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.