Belafonte

Ánægjulegt var að heyra og sjá Harry Belafonte í kvöldþætti Ríkissjónvarpsins s.l. laugadag. Manngæskan og mannvitið geisluðu af manninum. Hugsun hans og orð snérust ekki eingöngu um hann sjálfan. Sem er fremur óvenjulegt af stjörnum. En auðvitað eru sumar stjörnur skærari en aðrar og þurfa ekki sjálfar að hæla sér. Og sumir auðmenn örlátari en aðrir. Það er gott fyrir sálina að heyra skemmtikraft af hæstu gráðu tala af viti um lífið og tilveruna.

Athyglisverð var skoðun hans á skemmtanaiðnaði nútímans. Þar benti hann á að fólkið sem stjórnaði og réði greininni nú á dögum kæmi að mestu leyti úr viðskiptaumhverfi. Ekki úr listaumhverfi, eins og eðlilegt væri, heldur úr viðskipta og markaðsfræðilegu umhverfi. Og það bitnaði á listinni. Nú væri eingöngu horft á mögulegan hagnað. Ekki gæði listar. Enda ekki hægt að ætlast til þess að löng skólaganga í peningafræðum þroski annað en fjármagnsfræði.

Harry Belafonte

Jafnaldrar mínir eiga margar góðar minningar um söng Belafonte. Söng sem vakti gleði og andrúmsloft unaðar og huggunar við hin ýmsu tækifæri tilverunnar. Svo og samkennd með kúguðu fólki, þrælum og lítilsvirtu verkafólki. Minnihlutahópum. Sem alltaf finnast. Svartir, gulir, rauðir og hvítir. Í öllum kynslóðum. Enn í dag. Um víða veröld. Söngur hans kallaði á frelsi þeim til handa. Boðskapur hans í dag er menntun fyrir alla. Menntun og þekking er eina von hinna kúguðu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.