Einskonar bros

Það er sagt að gamlir karlar dvelji gjarnan í minningum fyrri ára lífs síns. Þessi svokölluðu manndómsár. Og að brúnin á þeim lyftist nokkuð þegar þeir fá færi á að endurlifa eitthvað af þeim ævintýrum. Eitt slíkt gafst síðastliðinn mánudag. Þá var réttað í Þverárrétt í Borgarfirði. Réttardagur var gjarnan hátíðisdagur fyrr á dögum. Þá komu saman þúsundir fjár af fjalli og hundruð manna úr byggð. Stemningin sérstök og ekki annarstaðar að finna. Glaðværð og tilhlökkun í ungum sem öldnum.

Þarna mætti alskyns fólk. Jafnvel á níræðisaldri. Þar á meðal gamlir fjallkóngar, sumir beinaveikir og með staf. Þeir horfa hróðugir yfir troðfullan almenninginn þar sem fólk var önnum kafið við drátt. Karlar, konur og börn gengu um skimandi eftir mörkum og lituðum plötum í eyrum. Þeir gömlu stóðu inni í dilkunum og þóttust gera gagn, með því einu að opna hliðið þegar komið var með kind. Betra en ekkert. „Þeir eru eiginlega allir dauðir þessir sem ég þekkti,” sagði Guðmundur í Hlöðutúni. Hann var fjallkóngur í ellefu ár.

Réttarstjórinn gaf skipanir hvellri raustu. Fé var sótt í nátthagann og rekið inn í almenninginn. Næsta törn hófst. Fránum augum gekk fólk um. Skimaði. Greip kind. Sannreyndi mark. Dró í dilka. Skimaði. Greip kind. Dró í dilka. Blaðstíft aftan þetta, tvístíft og biti framan hitt, sýlt, heilhamrað og fjöður. Og hvað þau nú heita öll. Raunar er plastmerki með númerum komið í sérhvert eyra nú til dags.

Konur gáfu körlum ekkert eftir í afköstum. Drógu af kappi. Áhorfendum fjölgaði eftir því sem leið á morguninn. Aftur gaf réttarstjórinn skipanir. Enn var rekið í almenninginn. Þegar kom fram á miðjan dag og drætti um það bil lokið var síðustu kindunum komið í dilk og þrengt að þeim með trégrind. Nú skyldi skorið úr um vafaatriði. Markasérfræðingur var kallaður til. Ási á Högnastöðum.

Ási kunni skil á öllum mörkum á Íslandi. Hann hefur leyst vafamál um mörk í Þverárrétt í sextíu ár, a.m.k. Og það gerði hann einnig núna. Hann þuklaði eyru lambanna, hugsaði sig um, þuklaði aftur, kallaði síðan upp bæjarnafn. Menn vilja ekki að bæjarnafn þeirra sé oft kallað upp. Það bendir til þess að þeir hafi ekki verið nógu röskir við dráttinn. Einn fletti upp í markaskrá. Stóð heima. Bæjarnafn kallað upp. „Einu sinni enn. Ég trúi þessu ekki,” sagði unga húsfreyjan sem átti kindina og roðnaði ofurlítið.

Svo lauk þessu. Fé var sett á heyvagna sem traktor dró. Einnig vörubíla. Aðrir gengu að bílum sínum og bjuggust til heimferðar. Ég ók heim á leið. Með einskonar bros á vör. Einskonar bros? Er það ekki nafn á ástarsögu eftir Francoise Sagan?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.