Vonbrigði

Stundum ná áhrif af miklum auglýsingum og upphrópunum markaðarins til manns. Hetjur markaðssetningarinnar hrópa þá svo hátt að það yfirgnæfir annað sem á döfinni er. Þegar um bækur er að ræða fellur einfaldur neytandi stöku sinnum fyrir skruminu. Ekki síst þegar markaðssetningin kallar til liðs við sig fagfólk til að skrifa undir átakið. Þegar ég segi fagfólk á ég við einstaklinga sem hafa háskólagráðu í skilningi og greiningu á bókum og bókmenntum.

Keypti á dögunum eina af bókum sumarsins. Kunnur bókmenntagagnrýnandi hafði léð bókinni nafn sitt og meðmæli. Bókmenntasmekkur er að sjálfsögðu mismunandi. Eftir tíu blaðsíður hafði bókin ekki náð áhuga mínum. Fór yfir hana hratt og fann hvergi efni sem vakti áhuga minn. Fleygði henni loks í ruslakörfuna. Átaldi „bókmenntagagnrýnandann” í huganum. Hann hafði brugðist mér.

Setning eftir T.S. Eliot rifjaðist upp. „Heiðarlegri gagnrýni og glöggu mati er ekki beint að skáldinu heldur skáldskapnum. Sé hugað að ruglingslegum ópum blaðagagnrýnenda og því almenna bergmáli sem eftir á fylgir, heyrist aragrúi af skáldanöfnum; sé sóst eftir skáldskaparnautn en ekki símaskrárfróðleik, og beið um ljóð, er því sjaldan svarað.”
(Spor í bókmenntafræði 20. aldar. 1991. Bls.47.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.