Að skipta um trúfélag

Það var ekki eins mikið mál og við áttum von á. Fórum inn á heimasíðu Hagstofunnar og fundum eyðublað. Prentuðum út tvö eintök. Fylltum þau út, skrifuðum undir og settum þau síðan í póst. Þetta er svo sem búið að vera á döfinni lengi. Við urðum meðlimir í Fíladelfíu fyrir 40 árum. Áttum ákaflega yndislegt samneyti við fólkið sem þá var í Kirkjulækjarkoti. Einlægt, lítillátt og hógvært. Nú er þriðja kynslóðin tekin við. Hún er öðruvísi.

Þegar litið er til baka yfir árin fjörutíu er margs að minnast. Fjöldi góðra vina sem ánægjulegt var að kynnast og auðgandi. Og skrítnir fuglar inn á milli. Eins og vera ber. En ráðamenn safnaðarins voru ekki alltaf dús við okkur. Það hófst strax á fyrsta árinu. Þegar við Ásta hófum útgáfu á Vinakveðju. Örlitlu blaði sem við fjölrituðum og sendum vinum okkar. Þá þótti ráðamönnum í Reykjavík ástæða til að fá prédikara til að sussa á okkur í sumarmóti hreyfingarinnar.

Fáum árum seinna vorum við rekin úr safnaðarhúsinu á Selfossi. Ástæðan var sú að við höfðum blásið lífi í safnaðarstarfið og sunnudagaskólann þar. Um þrjátíu manns mættu á samkomur og 150 börn voru á jólagleði sunnudagaskólans. Við þóttum of fyrirferðarmikil. Send var nefnd úr Reykjavík til að reka okkur. Og þessum viðhorfum hefur eiginlega aldrei linnt.

Í Samhjálp þjónuðum við í 22 ár. Við lögðum allt afl okkar, líf og kraft í það starf. Nutum okkar vel. Og Guð blessaði starfið. Það óx og stækkaði um þúsundir prósenta. Meira en þúsund manns, sem áttu í allskyns basli með lífið, sóttu stuðning og uppörvun til Samhjálpar. Karlar og konur. Og Guð jók við aðstöðuna jafnóðum. Hann var alltaf dús við okkur þótt ráðamenn í hreyfingunni ættu erfitt með það. Honum sé dýrðin.

Við höfum ekki breytt trúarviðhorfum okkar. En við höfum skipt um trúfélag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.