Hafragrautur og lýðskrum

Það var einu sinni vaktmaður. Hann átti að sjá um morgunmat. Meðal annars átti hann að elda hafragraut. Dag einn var hann spurður hvað hann syði haframjölið lengi. Hann svaraði að bragði. „Sjö til átta mínútur.” Þá var hann spurður: „Hefur þú lesið leiðbeiningarnar á pökkunum?” „Nei, ég þarf þess ekki. Ég hef eldað hafragraut alla ævi. Verið kokkur víða.” „En værir þú til í að lesa leiðbeiningarnar á pökkunum?” var hann spurður aftur. Þá brást hann hinn versti við. Stóð upp og tók að hrópa.

Viðbrögð hans voru ofsaleg og komu á óvart. Hann sagði að mamma hans hefði kennt honum að elda hafragraut og amma hans þar á undan og til samans hefðu þau öll meira en hundrað ára reynslu í að sjóða hafragraut. Og aldrei neinn kvartað. Menn skyldu ekki bera brigður á hæfni þessara kvenna sem væru kvenna dýrmætastar í lífi hans. Eftir langar ræður og hamagang reyndi spyrjandinn að komast að og sagði: „Þú ættir að lesa leiðbeiningarnar á pökkunum.” Vaktmaðurinn var á fullu innsogi þegar hinn kvaddi.

Þetta atvik kom upp í hugann á síðustu vikum. Fólk úti um allan bæ hamast og stappar niður fæti yfir margnefndu fjölmiðlafrumvarpi. Á bensínstöð um daginn nefndi ég það við dælumanninn. Hann miðaði á mig dælunni þegar ég spurði hann hvort hann hefði lesið frumvarpið. Næst þegar ég kom þangað valdi ég sjálfsafgreiðslutankinn.

Svo að nú er ég er steinhættur að þora að nefna frumvarpið. Hvað þá forsetann. Rifja aftur á móti upp hvað margir hávaðakjaftar á alþingi hafa í gegnum tíðina gasprað út af hinu og þessu málinu. Held að flestir þeirra hafi verið svokallaðir vinstri menn. Gæti nefnt marga. Atvinnukjafta sem hafa komist á þing út á það að þeim væri svo annt um afkomu lýðsins. Það var oftar meira í orði en á borði.

Það er annars merkilegt orð „lýður.” Orðabókin segir: „1 þjóð, fólk- land og lýður- alþýða- óþjóðalýður, skríll.” Þá er og annað orð tengt þessu: „lýðskrum.” Orðabókin segir: „skrum fyrir almenningi eins og hann vill heyra. Og enn bætist við orðið „lýðskrumari.” Um það segir orðabókin: „stjórnmálamaður sem tekur einungis afstöðu eftir því hvernig vindur blæs meðal almennings – stjórnmálamaður sem aflar sér fylgis með því að höfða til lægstu hvata kjósenda.”

Það kemur á óvart hve margir hlusta á skrumið og sleppa því að lesa á pakkann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.