Biluð heimasíða

Þeir hjá Heimsneti.is hafa hýst heimasíðuna mína frá upphafi hennar. Það hefur að meðaltali gengið vel. Í síðustu viku brá þó til hins verra. Nánar tiltekið mánudaginn 3. maí. Þá var eins og lífsstrengurinn til síðunnar slitnaði. Hún hætti að taka við pistlum og hætti að telja heimsóknir og var öll hin erfiðasta. Þegar hringt var í hýslana sögðu þeir að fyrirtækið Og Vodafone, sem hafði yfirtekið Heimsnet.is fyrir nokkru, hefði skipt um eða endurnýjað vélar og þá hefðu sumar tölvur ekki sömu formerki og nýju tækin þeirra.

Það leiðinlegasta við þetta var hvað marga daga það tók að fá þetta í lag. Brynjólfur Ólason, sem hannaði síðuna og hefur verið tengill við hýsilinn, átti í mestu erfiðleikum með að fá samband við þjónustudeildina og vísuðu menn hver á annan. En í morgun, 11. maí, fékkst niðurstaða í málinu. Skipta þarf um ýmsar tölur og formerki fyrir aðgengi og væntanlega nær það í gegn fyrir kvöldið.

Ég vil biðja fastagesti heimasíðunnar, svo og aðra gesti hennar, sem hafa í lítillæti sínu heimsótt hana undanfarna 20 mánuði, afsökunar á þessum leiðindum. Læt og í ljós þá von mína að heimasíðan fái að njóta vinsemdar og vináttu þeirra áfram eins og hingað til. Í bók sinni Um vináttuna segir Cicero: „Vinátta er ekkert annað en samræmi allra hluta, mannlegra jafnt sem guðdómlegra, ásamt góðvild og kærleika. Að viskunni frátalinni er mér nær að halda að betri gjöf hafi hinir ódauðlegu guðir ekki gefið manninum.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.