Ágæti Guð

Maður nokkur fór með bæn. Hann sagði: „Ágæti Guð, þakka þér fyrir þennan efnilega dag…“ Ég er enn að reyna að setja mig í spor mannsins. Tekst það ekki. Hef þó heyrt margt undarlegt orðalag í bænum fólks um ævina. Á nokkuð auðvelt með að skilja tilraunir „fátækra í anda” til að tala við Guð. Þeir hafa yfirleitt svipuð viðmið og Jóhannes skírari, sem sagði við lærisveina sína um frelsarann: „Hann á að vaxa, en ég að minnka.”

Hvað um það. Páskarnir voru að miklu leyti helgaðir systur minni og fermingum barnabarna. Systir mín, Sigurbjörg Ágústsdóttir Dix, býr í Texas. Hún hefur ekki komið til Íslands í átta eða níu ár. Við áttum innilegar samverustundir. Sonur hennar, sem býr á Íslandi, bauð henni í fermingarveislu síns sonar. Þá var hún einnig í tveim öðrum fermingarveislum í fjölskyldunni. Þar hitti hún fjöldann allan af skyldmennum og gömlum vinum og kyssti og faðmaði. Kyssti og faðmaði. Einnig hitti hún nýja frændur og frænkur sem orðið hafa til síðan hún kom síðast til landsins. Hún fór svo heim á leið í fyrradag. Áætlaði að vera um 30 klukkustundir á leiðinni. Þessi elska. Hún lýsti upp páskana með elskulegu viðmóti og vinsemd.

Það er ánægjulegt að vera í veislum með vinum sínum. Börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Og finna langafatitilinn nefndan til leiks við faðmlög yngstu meðlimanna. Og langömmuna! Man eftir blendnum viðbrögðum fyrstu árin sem titlarnir afi og amma tóku gildi hjá okkur Ástu. Núna er þetta öðruvísi. Aðrir orðnir afar og ömmur og maður glottir álengdar.

Heyrði sögu um ógiftan mann. Hann fór í öll brúðkaup í fjölskyldunni. Eins og vera ber. Gömlu konurnar í fjölskyldunni hölluðu sér að honum við hvert brúðkaup og sögðu: „Þú verður næstur. Þú verður næstur.” Ógifta manninn langaði ekkert að giftast og hafði engin áform uppi um það. Leiddist honum tuðið í gömlu konunum. Ákvað að gera eitthvað í málinu. Næst þegar ættmenni var jarðsungið og fólk fylgdi kistunni eftir moldun, hallaði hann sér að gömlu konunum, einni í senn, og sagði: „Þú verður næst. Þú verður næst.” Þar með lauk áreiti þeirra.

Að lokum örlítil frásaga um dreng sem spurði föður sinn: „Pabbi, er það virkilega satt að þú hafir farið í kirkju á hverjum sunnudegi þegar þú varst strákur?” Pabbinn rétti úr sér og svaraði, hróðugur: „Já, drengur minn, hvern einasta sunnudag.” Drengurinn hugsaði sig um nokkra stund og sagði svo: „Ég skal veðja, að þótt ég færi á hverjum sunnudegi í kirkju, mundi það ekki heldur gera mér neitt gott.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.