Þokan á þriðjudag

Morguninn var svo dularfullur. Þoka lá yfir borginni. Sást eiginlega ekki á milli húsa hérna í dreifbýli Kópavogs. Umferðin gekk hægar en venjulega. Niður í miðbæ Reykjavíkur,- það er annars merkilegt að þegar maður segir niður í miðbæ, þá er ávallt átt við miðbæ Reykjavíkur. Kannski er það af því hvað miðbær Kópavogs er fráhrindandi og óvænn. Hvað um það. Gallinn við miðbæ Reykjavíkur er samt sá að maður verður að bíða til klukkan 10 eftir að verslanir opni. Það er ljótur ósiður. Karlar á mínum aldri vilja helst afgreiða erindi sín á morgnanna.

Í Bankastræti kallaði styttan af persónunum tveim á að tekin væri af þeim mynd. Hvað ég gerði. Þau eru svo elskuleg og gaman að hitta þau. Það hvarflar að mér stundum að ég sé orðinn svo innhverfur og fúll að ég deili helst ekki geði nema við myndastyttur. Við þessar þarna get ég talað á fullu. Er raunar talsvert skotinn í þeim. Hafið þið ekki upplifað hvernig sumt fólk sem þið hittið er strax eins og þið hafið þekkst um langt árabil? Það er þannig með mig og þessar styttur í Bankastræti.

Svo ók ég inn Sæbraut. Heitir hún það ekki alla leið niður í miðbæ? Enn var þokan mikil og umferðin þétt. Fólk á leið í vinnu. Við Sólaskipið bar sérstaka birtu á tilveruna. Tók því u-beygju á móts við trésmiðju Völundar. Sem var. Allur í fortíðinni. Stansaði við Sólarskipið og fór út. Veðrið var þægilegt. Logn. Hlýtt. Úti í mistrinu grillti í togara sem dólaði í hringi. Hefur eflaust verið að rétta kompásinn. Það var ánægjulegt að fylgjast með því. Vonin um vorið var í loftinu.

Útlenda ferðamenn bar að. Par. Milli þrítugs og fertugs. Konan talsvert yngri en karlinn. Hún stiklaði á grjóthleðslunni. Það var svo flott og þokan allt um kring og enginn bakgrunnur. Konan var glaðleg og klifraði upp í Sólarskipið. Skellihló og veifaði karli sínum sem reyndi að taka mynd af henni. Ég sneri mér að honum og spurði hvort hann vildi ekki klifra upp í skipið til konunnar, ég skyldi taka mynd af þeim saman.

„Nei takk,” sagði hann, „nei takk. Þakka þér samt fyrir.” Konan hans hló til hans. Hún var í skærgulri regnflík. Svo gengu þau vestur í þokuna. Hún uppi á grjóthleðslunni, hlægjandi og glaðleg. Hann eins og útfararstjóri. Blessaður maðurinn. Eins og morguninn var umlykjandi og blíður. Og blessaður. Já. Einmitt. Blessaður. Það er rétta orðið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.