En víst er ástin til

„Að neita fyrirgefningu og náð, þessu tvennu sem gert hefir lífið þess vert að lifa því, það er líkast því að neita því að ást sé til.” Þessi setning er í Lesbók Moggans í morgun, úr bréfi Ragnars í Smára til Matthíasar ritstjóra fyrir mörgum árum. Ragnar er að tala um Þórberg Þórðarson og skoðanir hans á eilífðarmálum. Verið er að minnast Ragnars, þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans.

Menn muna Ragnar. Hann var svo oft í grennd. Kenndur við smjörlíkisgerðina Smára. Stóð á bak við Halldór Kiljan Laxness og bækur hans og fleiri. Gaf út eftirprentanir af málverkum og sinnti tónlist. Hann lét ekki mikið á sér bera. Kom þó ákveðið í ljós við forsetakosningar eitt árið. Það er önnur saga.

Menn fóru og keyptu sér bækur og bókasöfn í Helgafelli. Biðu ávallt með eftirvæntingu eftir bókum Halldórs Laxness. Komu við á Veghúsastígnum í dagslok á leið heim úr vinnu, keyptu sér bók og tóku að lesa og gleymdu að sofa. En urðu aldrei sáttir við Fjallamjólkina í eftirprentun. Það tókst ekki að eftirprenta ástina.

Kálfinn um Ragnar í Lesbókinni í morgun, ættu allir að lesa. Það er kraftur í greinunum eins og það var kraftur í manninum sem þær fjallar um. Sá kraftur smitar frá sér og gerir manni gott.