Hraðferð um Snæfellsnes

Við ákváðum að treysta á loftvogina sem var hægt hækkandi og ókum um Snæfellsnes. Rangsælis. Tókum daginn nokkuð snemma. Það var skýjað í upphafi ferðar. En það er þægilegt í bíl. Og litir jarðar dýpri. Eftir kaffibolla við „brúarsporðinn”, Shellskálann í Borgarnesi, héldum við vestur Mýrar eins og leið liggur. Sáum sólskin framundan.

Beygðum upp í skarðið við Vegmót. Nú heitir leiðin sennilega Vatnaleið. Þar rýmkuðu skýin fyrir sólinni og fylgdi hún okkur meira og minna yfir daginn. Það var langt síðan við ókum nesið og því tilhlökkun. Komum í Stykkishólm. Stafalogn og blíða. Á tjaldstæðinu fengum við okkur af nestinu. Kjúkling og kaffi af brúsa. Stönsuðum við höfnina. Erill var við hvalaskoðunarbát. Töfðum ekki lengi. Héldum vestur á bóginn

Í Stykkishólmi

Maður færð ekki sömu áhrif af landslagi tvisvar. Þótt fagurt sé. Við glöddumst yfir miklum breytingum á vegum. Rifjuðum upp fyrri ferðir. Þvottabretti, holótta kafla, harða kafla og ryk, ryk, ryk og aftur ryk. Það var ekki þannig núna. Flauelsmjúkt yfirborðið lék við hjólbarðana. Stönsuðum stutt undir Kirkjufelli. Komum næst í Grundarfjörð. Bátur lagði að bryggju. Ungir menn lönduðu afla. Fóru út aftur. Annar bátur tók línubala um borð.

Í Ólafsvík eru kosningaslagorð enn á húsveggjum. Mikil umferð um bæinn. Stönsuðum stutt. Á Rifi léku innfæddir sér á „sjóhestum”, eða hvað það nú heitir. Nýbúar hengdu tau á snúrur. Kríur þöktu vegi og götur. Argandi og gargandi. Ögruðu bílum. Á Hellissandi var helgarstemning. Fáir úti við.

Guðríður með drenginn

Þegar við ókum fram hjá Hólahólum rifjuðust upp gömul ævintýri sem við lifðum þar fyrir margt löngu. Í fyrstu ferðinni með fullan bíl af börnum. Þá var handagangur í öskjunni. Vorum þar í tjaldi. Löngu seinna tvö á ferð. Allt voru þetta góðir dagar. Rifjuðum einnig upp þriggja daga dvöl á túninu á Dagverðará, þá í tjaldvagni og lognið svo mikið að ekki þurfti að festa hæla. Og þá var Týrus með. Þessi kæri vinur.

Kirkjan á Hellnum

Sunnan við jökul var heiðskírt. Logn. Sjórinn spegilsléttur eins og augað eygði. Næst hittum við Guðríði með drenginn sinn. Sáum Skarðsheiði og Akrafjall yfir flóann. Á Arnarstapa var fólk í hverju sumarhúsi og yfir hundrað tjöld og tjaldvagnar á tjaldstæði. Merkilegt að sjá hvernig fólkið bunkar sér saman í kös. Á Búðum voru aðrir að búa sig undir að opna nýtt hótel. Stillt var á tungl sem átti að vera fullt kl. 20:20. Aðrir seinna.

Og nú tókum við stefnuna heim. Góður dagur að kvöldi kominn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.