Bragðlítið kaffi

„It is sundaymorning and it is rain.” Þannig kynnti þulurinn fyrsta atriði sunnudagsins á New Port News hátíðinni fyrir um fjörutíu árum síðan. Mikill mannfjöldi var þarna samankominn til að hlusta. Mahalia Jackson gekk fram á sviðið, ábúðarmikil og full af orku, og söng lagið Rain. Á eftir fylgdi röð trúarlaga sem einmitt voru hennar einkenni og blessuðu hjörtu miljóna hlustenda um víða veröld, árum saman.

Það er sunnudagsmorgunn og það er rigning. Á Íslandi er hægt að bæta því við að það er einnig stormur. Rok og rigning. Óvenjulegur vetur, blautur, drungalegur og í rauninni fúll, þótt margir gleðjist yfir hlýindunum. Hringdi fyrir skömmu í færeyska tengdadóttur og spurði, eins og gengur, hvernig hún hefði það. „Fínt, fínt,” sagði hún glaðlega, „það er svo færeyskt veður.”

Horfandi út um horngluggann í morgun blasti þessi veðurtegund við. Rok og rigning. Og sitjandi einsamall, þar sem Ásta mín er í Danmörku á ráðstefnu á Skagen ásamt 150 öðrum félagsþjónustukonum frá hinum norðurlöndunum, var lítið hægt að tjá sig um veðurdýrðina hér. Kaffið var heldur ekki eins gott. Það vantaði félagsskapinn í það.

En félagsskapur og vinátta bóka eru stórkostleg huggun í tilverunni. Guði sé lof fyrir getu manna og vilja til að skrifa. Og ritninguna. Las í Jóhannesi tíu um Jesú í Súlnagöngunum á vígsluhátíðinni: „Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann. Jesús mælti við þá: „Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra viljið þér grýta mig?” Gyðingar svöruðu honum: „Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir… …að þú gerir sjálfan þig að Guði.””

Hljómsveitarstjórinn Leopold Stokowski stjórnaði hljómleikum Fíladelfíu sinfóníuhljómsveitarinnar. Í einum forleiknum átti trompet að leika baksviðs. Tvisvar sinnum átti hann að spila og tvisvar sinnum mistókst honum það. Stokowski varð vonsvikinn og reiður. Að forleiknum loknum stormaði hann baksviðs til að ræða við trompetleikarann. Þrekvaxinn öryggisvörður hafði þá tekið hann fastan og sagði: „Þessi brjálæðingur reyndi að blása í lúðurinn sinn á meðan konsertinn stóð yfir.”

Frásagan minnir á hvernig gyðingarnir, í góðri meiningu, vildu hindra Jesú í störfum hans líkt og öryggisvörðurinn hindraði verk Stokowskis. Gæti slíkt hent okkur?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.